fimmtudagur, 6. desember 2007

MH opinberlega orðinn dópistaskóli

Bæði Mogginn og 24 Stundir hafa hringt í okkur, ritstjórn Beneventi, og spyrja okkur nokkurra spurninga varðandi könnun sem við birtum í blaðinu (kom ferskt úr prentun síðasta föstudag). Könnunin var afskaplega hefðbundin í alla staði og var hönnuð af Andreu, verðandi ritstjóra þessa málgagns okkar kæru MH-inga. Áfengis- og eiturlyfjaneysla nemenda við skólans virðist hafa vakið einhverja athygli: Tæplega helmingur fjórðaárs nema hafa prófað eiturlyf og réttrúmlega helmingur nýnema játar að vera byrjað að drekka áfengi. Hefur rektor skólans meira að segja látið það hafa eftir sér að könnunin sé óvísindaleg og ómarktæk.

Af hverju vilja blöðin fjalla um þetta þá?

Ég er með kenningu. Eða kannski meira tilfinningu. Eins konar eðlisávísun. Eitthvað hljóta blaðamennirnir að skynja varðandi könnunina sem útskýrir að þeim finnist þetta frásögu færandi.

Nemendur eru ófeimnari við að segja jafnöldrum sínum hvað þeir hafa gert og hvað ekki. Þessi tími í hvers manns lífi gengur meira og minna út á það að hafa reynslu af framandi hlutum, því slíkt er eðli þeirra sem vilja líkjast þeim fullorðnu meir. Svo að það sé á hreinu tilheyri ég einni hópnum nemandi, ekki einhver hrokafull afatýpa sem er að reyna að sálgreina yngri kynslóðina. Mál- og skoðanafrelsi er hvergi skýrara en á jafningjagrundvelli og á góðum stundum er hægt að greina það innan veggja Menntaskólans við Hamrahlíð.

Staðreyndin er sú að Málgagn Nemendafélagsins við skólann (þ.e. fólk á sama aldri og á svipuðum stað í þroska) var á bak við könnunina, ekki t.d. einhver gæji frá SÁÁ. Ég held að það hljóti að hafa áhrif á hreinskilni svarenda og þar með niðurstöður að einhverju leyti. Alveg eins og við eigum auðveldara með að viðurkenna fyrir vinum okkar en foreldrum ef við stígum feilspor. Í okkar huga eru foreldrar líklegri til að dæma en það sem við þörfnumst er skilningur og úrræðasemi vinarins. Könnunin var auk þess nafnlaus svo ekki var hægt að benda á einn nemanda og stimpla hann sem dópista. Kemur sér vel. Hitt er svo annað mál að nafnleynd getur aukið líkur á því að einhverjir grínistar taki sig til og sendi frá sér bullsvör.

Ég vona innilega að könnunin hafi ekki orðið fyrir barðinu á því. Það getur einungis orðið til þess að fólk líti í hina áttina og telji sér trú um að litlu englabossarnir í menntó séu ennþá jafn saklausir og þegar þeir skriðu kámugir út úr móðurlífinu og orguðu af lífs og sálarkröftum eftir hlýju móðurinnar sem mun alltaf vernda þá gegn því illa í heiminum.