sunnudagur, 16. desember 2007

Trú hvíta hyskisins

Umræðan um meint trúboð íslensku Þjóðkirkjunnar í grunnskólum landsins er búin að vera einka hávær upp á síðkastið. Trúaðir og vantrúaðir hafa sakað hverjir aðra um þröngsýni eða ódrengilegheit og vanvirðingu við stjórnarskrárbundið trúfrelsi sem ríkir í landinu. Mér sýnist öll flóran af fólki lagt orð í belg hvoru megin við línuna og fær undirritaður ákveðinn aulahroll undan sumum óþverranum sem sumir trúaðir jafnt sem trúlausir láta út úr sér.

Ég er kominn með upp í kok af áróðri um að kristni hafi fylgt Íslendingnum í heila þúsöld. Það vita allir að þetta er einungis hálfur sannleikurinn. Til að byrja með voru Íslendingar „hálf-kristnir“ þar eð þeir gátu ennþá leyft sér ýmsa heiðna siði; borða hrossakjöt, blóta á laun og bera út börn. Upphaflega var kaþólsk kristni stunduð og var það ekki fyrr en 1550, í siðaskiptunum, sem Íslendingar fóru að aðhyllast lútherisma, sem er sú trú sem íslenska Þjóðkirkjan boðar og er varin af stjórnarskrá. Í rauninni má því segja að kristni eins og við eigum að þekkja hana er ekki einu sinni hálfþúsaldar gömul. Ekki furða að fólk taki í minna mæli mark á kirkjunnar mönnum, ef þeir leyfa sér að teygja sannleikann eftir hentisemi!

Sömuleiðis er ég hættur að nenna að lesa þetta bölvaða þras í mönnum sem meira að segja hafa fyrir því að titla sig „trúleysingi“, eins og það sé ekki augljóst þegar pistillinn er lesinn! Pistlar sem innihalda setningar sem byrja á „Við trúleysingjar...“ eru orðnir ansi margir. Helsta hræðsla þeirra er bersýnilega að tala frá eigin brjósti. Í staðinn tala þeir allir sem einn, eins og ein vel smurð maskína. Allt sem við kemur prestum annars staðar en í kirkjum kalla þeir hiklaust trúboð. Þetta er eins konar tískuorð hjá þeim, eins og þegar menn skeggræða pólitík; „arðrán“ er tískuorð þegar talað er um gömlu Sovétríkin og „efnishyggja“ um Bandaríkin. Með öðrum orðum: Allar gjörðir presta utan kirkju eru einfaldaðar niður í að vera kallaðar „trúboð“, sem er því miður afar illa skilgreint hugtak en allir trúleysingjar eru þó sammála um að það sé slæmt(!).

Í rauninni eru þeir engu betri en biskupsstofa, þeir eru bara hinum megin við línuna. Þetta eru öfgar í báðar áttir og mér var einu sinni kennt að allt væri best í hófi.

Þó leynast sannleikskorn þarna inn á milli. Ég held t.d. að það sé margt til í því að trúrækni Íslendinga fari minnkandi. Færri sækja kirkju nema við skírnir, giftingu, jarðarfarir og auðvitað á jólunum. Þess vegna er mikilvægt að spyrja sig hvort ennþá sé hægt að réttlæta að ein trú njóti sérstakrar verndar ríkisins. Flestir af mínum nánustu vinum trúa ekki á guð ogsumir af þeim hafa jafn vel andúð á Þjóðkirkjunni. Auðvitað er þetta ekki marktækt en ef Þjóðkirkjan hefði sannarlega jafn mikið fylgi og þeir segjast hafa ætti ég að þekkja fleiri trúaða á mínum aldri.

Prestur að nafni Þórhallur Heimisson skrifaði í Mogganum í dag pistil sem laut að trúarbragðafræðikennslu. Hann skrifaði að miðað við hin Norðurlöndin stæðum við höllum fæti þegar kemur að menntun í trúarbargðafræði. Eftir grunnskólann er næstum því ekkert kennt sem kalla má trúarbragðafræði á meðan menn þurfa að taka stúdentspróf úr þessu fagi víða annars staðar.

Út frá þessu er gróflega hægt að álykta að Biblíubeltið svokallaða í Bandaríkjunum kenni eingöngu kristni í skólunum sínum, en enga aðra trú og sér í lagi ekkert sem kallast „trúarbragðafræði“. Þetta leiðir óneitanlega af sér víðfræga staðalímynd um þröngsýnt hvítt hyski sem hefur afar afmyndaða og ósanngjarna skoðun til trúarinnar. Fólk með messíasarkomplex sem þarf að telja öllum trú um að þeirra trú sér sú eina rétta.

Trúleysingjar, sumir hverjir, geta líka verið haldnir þessu messíasarkomplexi. Þeir vilja bara ekki viðurkenna það.

Hvað gerist þegar sextán ára unglingur missir trúna og hefur engan til að ræða um það nema jafnaldra í sömu sporum eða bitrar greinar á netinu um hvað trú er órökrétt og blátt áfram hættuleg? Auðvitað hlýtur hann að öllum líkindum að enda á því að setja sig upp á móti trúnni. Fjögur ár í menntaskóla sem gæti upplýst fólk á viðkvæmum aldri um bæði kosti og galla trúarbragða held ég að gætu leitt af sér að unglingurinn sjái enga þörf í því að tilheyra öðru hvoru „liðinu“ heldur gerir það sem er svo mikilvægt að allir geri: Mynda sér sína eigin skoðun.

Þröngsýnar skoðanir, hvorum megin sem þær leynast, spretta út frá fáfræði. Aukin menntun í trúarbragðafræði leiðir af sér víðsýni og skilning og verulega rýrnun í landlægum heilaþvætti.