miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Persónulegur pirringur látinn í ljós með hjálp örsögu

Pési vaknaði morgun einn við að síminn hans hætti ekki að tísta. Innbyggða vekjaraklukkan var búin að láta hann vita af því í hartnær tuttugu mínútur að klukkan var orðin sjö. Pési er, eins og flestir Íslendingar, óviðræðuhæfur á þessum tíma dags. Eftir að hafa klætt sig og tekið til nesti og skólagögn staulast hann inn í eldhús. Með hreyfingum sem minna á uppvakning nær hann sér í bolla, fyllir hann af kaffi og sötrar varlega en af áfergju.

Kaffið er ekki byrjað að gera sitt gagn þegar Pési stendur í hnipri inni í strætóskýlinu. Þegar vagninn hefur stansað við fætur hans og dyrnar opnast gengur Pési inn þungum og klunnalegum skrefum og hendir smámynt í baukinn fyrir framan bílstjórann. Bílstjórinn biður Pésa um skilríki en afsakar sig í sömu andrá. „Ég hélt að þú hefðir sýnt skólakort.“

Um leið og Pési settist niður fann hann kunnuglega lykt sem betra væri að vera án rétt í morgunsárið. Pési hafði þó vaknað með agalega stíflu í nefinu og varð því að anda með munninum. Óþefurinn var slíkur að hægt var að finna hann þrátt fyrir það og lá við að Pési kúgaðist. Hann gretti sig og leit undan í von um að geta snúið sér undan ógeðslegu svælunni en auðvitað virkaði það skammt.

Hann leit til hægri á upptök stækjunnar: Lítill strákpatti með hor í nös að gæða sér á harðfisksflaki. Flakið var ílangt og hlandgult svo það gat naumast verið þorskur. Kannski steinbítur.
Pési fylgdist með barninu kjammsa á harðfisknum. Það var algjörlega grunlaust um það gríðarlega tillitsleysi sem það sýndi með því að narta í þetta þar sem allir gátu séð til, en ekki í lokuðu og helst loftþéttu rými þar sem harðfisks á alltaf að vera neytt! Ef fólk kæmi sér saman um að éta harðfisk á það að minnsta kosti að bjóða fólki valkost um að geta farið eitthvað annað.

Enda var þetta blessunarlega bara pjakkur.

Pésa tókst að leggja þennan pirring til hliðar þegar í skólann var komið. Dagurinn í dag hefði getað verið dagurinn fyrir viku með fáeinum tilfæringum. Hringt var inn í tíma eftir nestishlé. Próf í stærðfræði. Þrátt fyrir að vera óskiljanleg brýtur þetta fag upp hugsanaganginn. Skemmtileg tilbreyting frá tungumálanámi og öðru sem krefst þess að maður þurfi að tjá sig og hafa skoðanir. Stærðfræði einfaldlega er. En ekki í dag. Sama lyktin og herjaði á vit Pésa fyrr í morgun sveið innan í stífluðum nösum hans. Hann leit snöggt til hægri og horfði hatursfullum augum á sökudólginn sem var í þann veginn að slíta sér aðra flís af harðfisknum á meðan hann leysti prófið. Einbeitingunni þvarr til muna og Pésa sást yfir klunnalegustu smáatriði í einfaldasta bókstafareikningi. Þegar helmingur tímans var liðinn var Pési enn á fyrstu blaðsíðunni og hafði klúðrað öllum dæmunum. Svitaperlur tóku að myndast á enninu á honum. Ekkert komst að í hugsun hans nema þessi bannsetta lykt.

Pési var fyrstur til að skila prófinu áður en hann rauk út úr stofunni, eins langt fjarri stofunni og hægt var. Hann langaði til að öskra og reyta af sér allt hárið. Hann langaði til að taka harðfisksræksnið og troða því upp í kokið á stráknum sem truflaði hann. Hann langaði heim undir sæng og fara í fósturstellingu.

Hann langaði til að grenja eins og daginn sem honum var þrýst út úr paradís til að lifa í kaldri veröld sem hefur ekkert að bjóða nema grimmd og tillitsleysi.