miðvikudagur, 26. desember 2007

Jólafrí? Jólaheiladauði!

Þetta er alveg svakalegt. Þetta jólafrí er hin mesta þjáning. Það eina sem mér tekst að gera er að sofa og borða. Svo þegar ég fer að hátta mig lít ég löngunaraugum á bækurnar (ennþá í plastinu) sem ég fékk í jólagjöf, sem lagðar eru pent við hliðina á öllum hinum bókunum sem ég er ekki ennþá búinn að lesa nema einn og einn kafla. Ég sem ætlaði að ná að klára þetta allt, búinn að sitja hraðlestrarnámskeið og allt!

Sindri Freyr, góður vinur minn, útlagði fyrir mig hvernig líf vinnumannsins er í grófum dráttum og það má eiginlega heimfæra yfir á námsmanninn líka þar sem hann er oftast einnig í vinnu. Við vinnum og vinnum, fáum góðfúslegt leyfi til að taka okkur frí aðra hverja helgi til að hvíla lúin bein, við fáum sumarfrí sem eru nægilega löng svo að fyrirtækið líði ekki fyrir missinn. Fríin eru oftast varin í fyllerí því önnur tækifæri fáum við ekki til að blanda geði.

Það er svosum margt til í þessu, þó ég taki ekki alveg svo djúpt í árina. Jólafríið mitt nýtist ekki til neins annars en allra nauðsynlegustu frumþarfa og jafnvel það skerðist. Ég er búinn að lesa svo skrambi mikið yfir skólaönnina að mér reynist að halda því áfram loks þegar hún er liðin og tími hvíldar er skollinn á.

Á síðustu dögum hafa kvöldverðirnir verið jafnframt morgunmatur hjá mér, í besta falli hádegisverður. Eftir messuna í Dómkirkjunni á aðfangadagskvöldi sótti að mér svakalegt hungur því maginn gat ekki vitað betur en það væri kominn kvöldmatartími. Síðan fer ég að sofa um svipaðleyti og Mogginn rennur inn um lúguna.

Þetta er ekkert líf. Þetta er andlegt dauðadá.