fimmtudagur, 27. desember 2007

Intermissjón(varp)

Áramótaskaupið hefur fengið óvenjumikla umfjöllun undanfarið miðað við að enginn hefur séð það ennþá. Reyndar ekki Skaupið sem slíkt heldur miklu frekar hin aukna þörf auglýsenda til að skemma fyrir áhorfendum því þeir standa í þeirri trú að við ginnumst af þess háttar truflunum.

Ekki nóg með það að auglýsingarplássið fyrir Skaupið er orðið eftirsóttasta pláss sem hægt er að hugsa sér í íslensku sjónvarpi - sekúndan kostar þrettán þúsund krónur og plássið hlaut Kaupþing og skartar John Cleese (aftur) og Randveri sem áður var í Spaugstofunni - heldur er RÚV búið að taka ákvörðun um að kljúfa Skaupið í tvennt og troða einni skitinni mínútu á milli handa hæstbjóðanda. Auglýsandinn sem ríður á vaðið sem Félagsskítur Ársins verður því REMAX og þurftu þeir einungis að punga út þremur íslenskum milljónum til þess að hljóta þann titil.

Er virðing Ríkisútvarpsins virkilega föl fyrir þrjár milljónir? Virðing sem fól í sér að allt sjónvarpsefni væri sýnt án truflana. Meira að segja Guiding Light er sýnt óskert! Að saurga Skaupið fyrir landanum er svipað og að skipta út hálfkláruðum jólagrautnum fyrir kæstum hákarli. Svo fá allir búðinginn sinn aftur eftir að hafa sporðrennt fúlmetinu.

Nú vildi ég að Egill Skallagrímsson vaknaði aftur til lífsins. Við þurfum að reisa nokkrar níðstangir!