fimmtudagur, 20. desember 2007

Málfrelsi og íslenskt útvarp

Ég hef ekki mikla unun af því að keyra, a.m.k. af gjörðinni sjálfri óflekkaðri. Hins vegar kemst maður í sérstakt hugarástand á rúntinum með kveikt á útvarpinu. Það tók ekki langan tíma að átt mig á því hversu keimlíkar allar útvarpsstöðvarnar þessa lands eru þannig að yfirleitt hlusta ég bara á BBC World Service. Dagurinn í dag var helgaður umræðum um málfrelsi og greinilega mikið lagt upp úr þessu því fólk gafst tækifæri til að hringja hvaðanæva úr heiminum og láta í ljós sína skoðun á málefninu. Á leið minni frá Sundahöfninni og heim til mín í Vesturbænum heyrði ég skoðanir fólks frá Eþíópíu, Indlandi, Bandaríkjunum, Bretlandi og afstaða þeirra var jafn ólík og dagur og nótt.

Það besta við þáttinn var að flestir sem hringdu voru ekki bara fólk með krúttaðar hugsjónir um að allt væri leyfilegt og annað væri bara fásinna. Þáttastjórnendurnir voru einnig afar duglegir við að spyrja og benda á rökvillur og höfðu það greinilega sem markmið að fá heilsteypta niðurstöðu undir lok þáttarins, áheyrendanna vegna.

Íslenskt útvarp einkennist af því að minna áheyrandann á mínútu fresti að það sé pottþétt að hlusta á tiltekna útvarpsstöð og oftar en ekki er þáttastjórnandinn með munnræpu og illa talandi á móðurmálinu. Allar rásirnar keppast innbyrðis um að vera með landsfræg hirðfífl í morgunþáttunum og spila síðan einhverja vellu sem verður rennur út fljótar en mjólkin útí búð.

Augljóslega er ég ekki að tala um RÚV og Rás 2. Eins mikið og maður vill bölva hinu ríkisrekna er þetta það besta sem býðst íslendingum á eigin tungumáli á meðan keyrt er í vinnuna. Er útvarpsfólkið betur borgað þar en í Bylgjunni? Hamingjusamara?

Ég væri a.m.k. löngu búinn að bíta af mér handlegginn ef ég væri þáttastjórnandi á Bylgjunni. Hverjum datt það í hug að það væri sniðugt að spila sama Phil Collins-lagið svo oft á sama deginum? Þetta framkallar svipaða tilfinningu og ef maður sæti á tannlæknabiðstofu í Helvíti.