miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Persónulegur pirringur látinn í ljós með hjálp örsögu

Pési vaknaði morgun einn við að síminn hans hætti ekki að tísta. Innbyggða vekjaraklukkan var búin að láta hann vita af því í hartnær tuttugu mínútur að klukkan var orðin sjö. Pési er, eins og flestir Íslendingar, óviðræðuhæfur á þessum tíma dags. Eftir að hafa klætt sig og tekið til nesti og skólagögn staulast hann inn í eldhús. Með hreyfingum sem minna á uppvakning nær hann sér í bolla, fyllir hann af kaffi og sötrar varlega en af áfergju.

Kaffið er ekki byrjað að gera sitt gagn þegar Pési stendur í hnipri inni í strætóskýlinu. Þegar vagninn hefur stansað við fætur hans og dyrnar opnast gengur Pési inn þungum og klunnalegum skrefum og hendir smámynt í baukinn fyrir framan bílstjórann. Bílstjórinn biður Pésa um skilríki en afsakar sig í sömu andrá. „Ég hélt að þú hefðir sýnt skólakort.“

Um leið og Pési settist niður fann hann kunnuglega lykt sem betra væri að vera án rétt í morgunsárið. Pési hafði þó vaknað með agalega stíflu í nefinu og varð því að anda með munninum. Óþefurinn var slíkur að hægt var að finna hann þrátt fyrir það og lá við að Pési kúgaðist. Hann gretti sig og leit undan í von um að geta snúið sér undan ógeðslegu svælunni en auðvitað virkaði það skammt.

Hann leit til hægri á upptök stækjunnar: Lítill strákpatti með hor í nös að gæða sér á harðfisksflaki. Flakið var ílangt og hlandgult svo það gat naumast verið þorskur. Kannski steinbítur.
Pési fylgdist með barninu kjammsa á harðfisknum. Það var algjörlega grunlaust um það gríðarlega tillitsleysi sem það sýndi með því að narta í þetta þar sem allir gátu séð til, en ekki í lokuðu og helst loftþéttu rými þar sem harðfisks á alltaf að vera neytt! Ef fólk kæmi sér saman um að éta harðfisk á það að minnsta kosti að bjóða fólki valkost um að geta farið eitthvað annað.

Enda var þetta blessunarlega bara pjakkur.

Pésa tókst að leggja þennan pirring til hliðar þegar í skólann var komið. Dagurinn í dag hefði getað verið dagurinn fyrir viku með fáeinum tilfæringum. Hringt var inn í tíma eftir nestishlé. Próf í stærðfræði. Þrátt fyrir að vera óskiljanleg brýtur þetta fag upp hugsanaganginn. Skemmtileg tilbreyting frá tungumálanámi og öðru sem krefst þess að maður þurfi að tjá sig og hafa skoðanir. Stærðfræði einfaldlega er. En ekki í dag. Sama lyktin og herjaði á vit Pésa fyrr í morgun sveið innan í stífluðum nösum hans. Hann leit snöggt til hægri og horfði hatursfullum augum á sökudólginn sem var í þann veginn að slíta sér aðra flís af harðfisknum á meðan hann leysti prófið. Einbeitingunni þvarr til muna og Pésa sást yfir klunnalegustu smáatriði í einfaldasta bókstafareikningi. Þegar helmingur tímans var liðinn var Pési enn á fyrstu blaðsíðunni og hafði klúðrað öllum dæmunum. Svitaperlur tóku að myndast á enninu á honum. Ekkert komst að í hugsun hans nema þessi bannsetta lykt.

Pési var fyrstur til að skila prófinu áður en hann rauk út úr stofunni, eins langt fjarri stofunni og hægt var. Hann langaði til að öskra og reyta af sér allt hárið. Hann langaði til að taka harðfisksræksnið og troða því upp í kokið á stráknum sem truflaði hann. Hann langaði heim undir sæng og fara í fósturstellingu.

Hann langaði til að grenja eins og daginn sem honum var þrýst út úr paradís til að lifa í kaldri veröld sem hefur ekkert að bjóða nema grimmd og tillitsleysi.

sunnudagur, 25. nóvember 2007

Hending undir lok ljúfsárrar helgar

Ort milli spýjukasta á Hverfisbarnum föstudagskvöld um tíuleytið (afar ófullkomin dróttkvæð vísa):

Sumbl umlar bumba,
Berserkr út vill iðra.
Mjöðr flæðir fjaðrléttr,
Niðr bringu og vanga
Slefr úr skeggi lekr.

Útskýringar:

Sumblbumba: bjórvömb
berserkr iðra: magakveisa

miðvikudagur, 21. nóvember 2007

Örlítill prósi

Læða lagði yfir dalinn og döggvaði blómið og grasið. Syfjan herjaði á litlu börnin og þögnin var allsráðandi. Sólin seig og hvarf bakvið fjallgarðinn og roðinn litkaði þokuslæðuna. Steggjapari brá fyrir, svamlandi í fjörunni, sem tíminn skreytti eitt sinn með skeljum og fögrum steinum. Skrækir í kríu fléttuðust saman við seiðandi óm sjávarins. Við klettahamrana lá strákur á maganum risinn upp við dogg, máttlaus, sveittur og með bremsufar á brókinni. Föl bunan úr kjaftinum fossaði út úr honum og fýlarnir flugu undan vellunni með hraði. Einn þeirra er efst bjó svaraði í sömu mynt og hitti strákinn í andlitið svo af honum lagði fúl lýsislykt í bland við súru stækjuna úr honum sjálfum. Strákurinn kreppti með annarri höndinni utan um græna glerflösku með svörtum miða á, sem fyrr um kvöldið var full af glærum og kynngimögnuðum vökva. Í hinni var lufsa af kæstum hákarli, tyggðum til hálfs. Honum fannst eins og þindin færi út sömu leið, þvílíkan herping hafði hann aldrei fundið fyrir. Enn gutlaði upp úr honum í hóstaköstunum og við það kúgaðist greyið og byrjaði aftur á nýjan leik. Hópur sílamáva gargaði langt fyrir ofan drenginn og dritaði til hans. Nú var gaman.

Hann lagðist á grúfu í grasið og leyfði sjávarniðnum að umlykja vitund sjálfsins. Í fjarska heyrðist fótatak í Jensínu, vinnukonu í sveit skammt frá, sem staðnæmdist við hægri síðu piltsins og kraup á kné. Hún lagði hönd á hár hans og jesúaði sig í innsoginu yfir veslings aumingjanum. Með kröftugri og þaulæfðri hreyfingu, sem ekki var við að búast hjá svo roskinni konu, vippaði hún honum yfir öxlina á sér og kjagaði í átt að bænum. Er heim var komið kraup hún niður og lagði vesalinginn á rúmið, undir höfuðið setti hún svæfil og ullarteppi yfir. Faðir hans rumskaði og settist loks upp við vegginn gengt honum. Hosurnar löfðu af fótunum til hálfs út fyrir rúmbekkinn. Hann ræskti sig og saug af miklum krafti upp í nefið, smjattaði örlítið. Að lokum heyrðist kunnuglegt kokhljóð. Hann dæsti eins og menn gerðu gjarnan eftir að hafa fengið í aðra tána. Augu hans beindust að syni sínum, þvölum og ókyrrum, með lokuð augun.

„Stalst hann í brennivínið helvískur. Ja nú veit hann betur.“ sagði hann og sneri sér að Jensínu. „Gefð'onum eitthvað að éta, svo hann spýji einhverju.“

Jensína tók til þrumara og smjör en einnig var til nýlagað kaffi því hún vissi að fólkið á bænum var hressara í bragði ef það vaknaði við ilminn af því. Hún hellti í bolla handa honum og bað hann að reisa sig svo hann gæti tekið við honum. Er hann tók bollan báðum höndum fann brennandi ylinn undan kaffinu stakk Jensína upp í hann rúgbrauðinu beið þess að hann beit. Smjörið leitaði í munnvikin á meðan hann smjattaði. Kjálkarnir sigu þegar hann var búinn að kyngja. Orkan í vaxandi kroppnum þraut fyrir löngu síðan. Strákgarmurinn hengdi haus og leyfði nýtuggðri saðningunni að streyma niður á bringuna. Slefið dinglaði af vörum hans er hann leit í gaupnir sér og skyrpti. Agnarsmátt og dauft rop kom í kjölfarið. Syfja herjaði á skynjunarvit hans og allt varð að lokum svart.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

ÓEMMGÉ [óendanlegur fjöldi upphrópunarmerkja]

The Mars Volta eru að spila á Vega í Kaupmannahöfn 22. febrúar.

Ég þangað!

föstudagur, 16. nóvember 2007

„Háa skilur hnetti himingeimur“

Í dag hefði Jónas „okkar“ Hallgrímsson orðið 200 ára gamall. Eins og oft vill verða um goðsagnir eins og hann breytist almenningsálit á honum með svipaðri reglufestu og nærfataskipti. Ennþá heyrist í einum og einum sem telur Jónas hafa verið fátt annað en róni og bullari, en sú er röddin háværari sem líta á hann sem eitt mikilvægasta og merkasta skáld sem ritaði á íslensku. Dagur íslenskrar tungu er núna orðinn að fánadegi og fjölmiðlarnir skapa heilu þemun í blöðunum sínum til að heiðra minningu Jónasar.

Flestir þekkja þá tilfinningu að finnast fyrirmyndir sínar vera óflekkaðar og að einhvernveginn hafi þær fæðst í þeirri fullkomnu mynd sem þær birtast. Það er aðeins til hið eina Nóbelskáld í okkar huga, alveg eins og það hefði enginn annar en snillingur á borð við hann Jónas getað ort „Ferðalok“. Þjóð elur þessa ekki manngerð af sér nema einu sinni á mannsævi.

Það virðist líka vera ákveðið mynstur sem ákvarðar hvað verður sígilt og hvað ekki. Velvild skáldsins gagnvart landi og þjóð er mikils metin, eins og hneigðin til að koma henni til bjargar ef hætta steðjar að. Þetta seinna atriði gerir skáldið reyndar heldur óvinsælt í samtíma sínum. Þess vegna felst ákveðin fórnfýsi í þessari gjörð sem óvíst verður endurgoldin eftir daga þess.

Þessi hugmynd er auðvitað ekki algalin. Vissulega standa örfáar manneskjur uppi sem ódauðlegar hetjur og bjargvættir íslenskunnar og eiga þau heiður skilinn. Hugmyndin gæti þó dregið kjarkinn úr sumum sem vilja svala tjáningarþörf sinni með sömu aðferðum og forverar sínir og e.t.v. krydda upp á þær eða fara nýjar leiðir.

Gleymum því heldur ekki að ekkert skáld skilar frá sér meistaraverki í fyrsta uppkasti. Bak við þau er ógurleg vinna og tel ég það miklu heldur aðdáunarvert að leggja í slíka vinnu heldur en nokkurn tímann hugsa mér það að Jónasi tókst að skrifa öll sín bestu kvæði án þess að fipast eða eyða aukateknum pappír eða bleki.

Því er það eins og með svo margt annað: Sá stendur uppi sem sigurvegari sem hlúir að sköpun sinni þar til hún er fullgerð. Annað er það nú varla.

miðvikudagur, 14. nóvember 2007

„The noose is on the loose“

Ég vaknaði í dag óvenjulega snemma því ég þurfti að mæta í skólann um átta leytið. Venjulega þarf ég að mæta um níu í allra fyrsta lagi og þess vegna var ég allóhress svona til að byrja með. Ég dreif í mig morgunmat í miklum skyndi og hellti kaffi í bolla sem ég sötraði á meðan ég vafraði aðeins um á veraldarvefnum. Pabbi leit yfir öxlina á mér og sagði síðan: „Tékkaðu á Skapari.com. Það má nú segja að það hafi vakið mig endanlega til vitundar svona í morgunsárið. Auðvitað hlaut að vera einhver hópur Íslendinga sem aðhylltist ný-nasisma, annað væri bara skammarlegt sakleysi í mér. Mér blöskraði samt þegar ég varð vitni að haturslegum og blátt áfram ógnandi orðbragði þeirra sem halda uppi síðunni. Um tíma var ég orðinn hræddur um eigið öryggi...

Ég ætla nú ekki að fara mörgum orðum um hvað mér finnst um síðuna fyrir utan augljósan gunguhátt. Í gríð og erg er fólki mismunað og kallað ófögrum nöfnum, stjórnarskrárbundið málfrelsi er fótum troðið og á aðalsíðunni er skýringarmynd sem sýnir hvernig á að binda hengingarsnöru. Dorrit er kölluð „júðakerling“ og Ólafur Ragnar forseti er „kynþáttasvikari“. Hvergi sér maður nafn greinahöfunda(r), en hægt er að beina skoðunum sínum til þeirra gegnum emailið skapari88 [hjá] yahoo [punktur] com (Nei, þetta er víst ekki fæðingarár þess sem heldur uppi síðunni, heldur þýðir 88 HH eða Heil Hitler, þar sem H er áttundi stafurinn í stafrófinu). Ómögulegt reynist að finna fólkið á bak við síðuna fyrir utan að síðan er hýst hjá PrivateWebHosting.org en slagorðið þeirra er eftirfarandi:

A private membership organization for straight, white, non-jews.

Í stuttu máli eru þetta manneskjur sem eru með sterkar skoðanir og vilja láta taka sig alvarlega án þess þó að þurfa að birta nöfn sín. Meiri hetjurnar! Hollusta þeirra gagnvart málstaðnum er aðdáunarverð. Hitler fór aldrei leynt með sínar skoðanir. Hann sat inni fyrir þær og gat líklega útfært það sem eins konar píslargöngu. Ég vona bara að ástandið í heiminum verði ekki slíkt að menn sem líta á kynþátt sinn sem trúarbrögð(!) muni ná að hafa einhver áhrif hér. Þann hluta mannkynssögunnar vil ég alls ekki upplifa né sjá í mínu lifanda lífi.

En eins og staðan er núna þarf enginn að skíta í buxurnar yfir þessu...

þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Önnur sería af Kallakaffi!

Nú þegar RÚV hefur þegið þessar líka fúlgur fjár frá Björgólfi er vart hægt að komast hjá því að spyrja hvað sé framundan í íslensku sjónvarpsefni. Langt af hefur meginþrýstihópur þessarar stofnunar verið ríkið sjálft svo óneitanlega er hér hægt að tala um nýja og ferska strauma en má fólk deila um það hvort vindáttin sé heillavænleg.

Útvarpsstjóri sagði í Kastljósinu að fjárframlög Björgólfs bæru ekki á neinn hátt með sér skuldbindingar af nokkru tagi. Peningunum mætti RÚV eyða eins og þeim hentaði við gerð nýrra sjónvarpsþátta. Björgólfur kæmi ekki nálægt framleiðslunni að neinu leyti öðru en að kosta hana. Miðað við frásögn Fréttastofu RÚV angar örlæti hans af engu öðru en hreinni gæsku og velvilja. Umfjöllunin er hættulega einhliða, enda er RÚV á heimavelli og því fyrst með fréttirnar og passar því upp á að sýndar séu allar hliðar málsins. Mönnum er ekki veittur tími til að kanna staðreyndir né velta vöngum. Þess vegna kom það alls ekkert á óvart þegar Páll Magnússon útvarpsstjóri sest gengt talsmanni Hollvinafélags Ríkisútvarpsins, Þorgrími Gestsyni. Öryggi og mælska fyrrnefnds ræðumanns kemur hinum seinni svoleiðis úr jafnvægi að hinn almenni áhorfandi spyr einskis frekar og dæmir málið útrætt og fljótt afgreitt.

Tíminn verður því að leiða það í ljós hvort Páll finni sig knúinn til að klóra Björgólfi á bakið í náinni framtíð. Með þessum peningi gæti hann t.d. haldið lífinu í Spaugstofunni í stað þess að lóga þessu gamla og tannlausa hundsóféti og gefa yngri og frumlegri grínurum löngu verðskuldað tækifæri. Fyrir afganginn af peningunum gæti hann látið framleiða aðra þáttaröð af Kallakaffi og aðra meinlausa ófyndni sem passar upp á að gera ekki á hlut neinna „velunnara“ Ríkisútvarpsins.

mánudagur, 12. nóvember 2007

...og byrja!

dæmigert að standa á gati þegar rita á fyrstu færsluna.