laugardagur, 5. janúar 2008

Fluttur um set

Kominn með lén. Nýja bloggið mitt er miklu betur útlítandi, auk þess sem það býður upp á meiri möguleika en blogspot.

Ferrarinn.net

Látið það berast!

fimmtudagur, 27. desember 2007

Intermissjón(varp)

Áramótaskaupið hefur fengið óvenjumikla umfjöllun undanfarið miðað við að enginn hefur séð það ennþá. Reyndar ekki Skaupið sem slíkt heldur miklu frekar hin aukna þörf auglýsenda til að skemma fyrir áhorfendum því þeir standa í þeirri trú að við ginnumst af þess háttar truflunum.

Ekki nóg með það að auglýsingarplássið fyrir Skaupið er orðið eftirsóttasta pláss sem hægt er að hugsa sér í íslensku sjónvarpi - sekúndan kostar þrettán þúsund krónur og plássið hlaut Kaupþing og skartar John Cleese (aftur) og Randveri sem áður var í Spaugstofunni - heldur er RÚV búið að taka ákvörðun um að kljúfa Skaupið í tvennt og troða einni skitinni mínútu á milli handa hæstbjóðanda. Auglýsandinn sem ríður á vaðið sem Félagsskítur Ársins verður því REMAX og þurftu þeir einungis að punga út þremur íslenskum milljónum til þess að hljóta þann titil.

Er virðing Ríkisútvarpsins virkilega föl fyrir þrjár milljónir? Virðing sem fól í sér að allt sjónvarpsefni væri sýnt án truflana. Meira að segja Guiding Light er sýnt óskert! Að saurga Skaupið fyrir landanum er svipað og að skipta út hálfkláruðum jólagrautnum fyrir kæstum hákarli. Svo fá allir búðinginn sinn aftur eftir að hafa sporðrennt fúlmetinu.

Nú vildi ég að Egill Skallagrímsson vaknaði aftur til lífsins. Við þurfum að reisa nokkrar níðstangir!

miðvikudagur, 26. desember 2007

Jólafrí? Jólaheiladauði!

Þetta er alveg svakalegt. Þetta jólafrí er hin mesta þjáning. Það eina sem mér tekst að gera er að sofa og borða. Svo þegar ég fer að hátta mig lít ég löngunaraugum á bækurnar (ennþá í plastinu) sem ég fékk í jólagjöf, sem lagðar eru pent við hliðina á öllum hinum bókunum sem ég er ekki ennþá búinn að lesa nema einn og einn kafla. Ég sem ætlaði að ná að klára þetta allt, búinn að sitja hraðlestrarnámskeið og allt!

Sindri Freyr, góður vinur minn, útlagði fyrir mig hvernig líf vinnumannsins er í grófum dráttum og það má eiginlega heimfæra yfir á námsmanninn líka þar sem hann er oftast einnig í vinnu. Við vinnum og vinnum, fáum góðfúslegt leyfi til að taka okkur frí aðra hverja helgi til að hvíla lúin bein, við fáum sumarfrí sem eru nægilega löng svo að fyrirtækið líði ekki fyrir missinn. Fríin eru oftast varin í fyllerí því önnur tækifæri fáum við ekki til að blanda geði.

Það er svosum margt til í þessu, þó ég taki ekki alveg svo djúpt í árina. Jólafríið mitt nýtist ekki til neins annars en allra nauðsynlegustu frumþarfa og jafnvel það skerðist. Ég er búinn að lesa svo skrambi mikið yfir skólaönnina að mér reynist að halda því áfram loks þegar hún er liðin og tími hvíldar er skollinn á.

Á síðustu dögum hafa kvöldverðirnir verið jafnframt morgunmatur hjá mér, í besta falli hádegisverður. Eftir messuna í Dómkirkjunni á aðfangadagskvöldi sótti að mér svakalegt hungur því maginn gat ekki vitað betur en það væri kominn kvöldmatartími. Síðan fer ég að sofa um svipaðleyti og Mogginn rennur inn um lúguna.

Þetta er ekkert líf. Þetta er andlegt dauðadá.

mánudagur, 24. desember 2007

fimmtudagur, 20. desember 2007

Málfrelsi og íslenskt útvarp

Ég hef ekki mikla unun af því að keyra, a.m.k. af gjörðinni sjálfri óflekkaðri. Hins vegar kemst maður í sérstakt hugarástand á rúntinum með kveikt á útvarpinu. Það tók ekki langan tíma að átt mig á því hversu keimlíkar allar útvarpsstöðvarnar þessa lands eru þannig að yfirleitt hlusta ég bara á BBC World Service. Dagurinn í dag var helgaður umræðum um málfrelsi og greinilega mikið lagt upp úr þessu því fólk gafst tækifæri til að hringja hvaðanæva úr heiminum og láta í ljós sína skoðun á málefninu. Á leið minni frá Sundahöfninni og heim til mín í Vesturbænum heyrði ég skoðanir fólks frá Eþíópíu, Indlandi, Bandaríkjunum, Bretlandi og afstaða þeirra var jafn ólík og dagur og nótt.

Það besta við þáttinn var að flestir sem hringdu voru ekki bara fólk með krúttaðar hugsjónir um að allt væri leyfilegt og annað væri bara fásinna. Þáttastjórnendurnir voru einnig afar duglegir við að spyrja og benda á rökvillur og höfðu það greinilega sem markmið að fá heilsteypta niðurstöðu undir lok þáttarins, áheyrendanna vegna.

Íslenskt útvarp einkennist af því að minna áheyrandann á mínútu fresti að það sé pottþétt að hlusta á tiltekna útvarpsstöð og oftar en ekki er þáttastjórnandinn með munnræpu og illa talandi á móðurmálinu. Allar rásirnar keppast innbyrðis um að vera með landsfræg hirðfífl í morgunþáttunum og spila síðan einhverja vellu sem verður rennur út fljótar en mjólkin útí búð.

Augljóslega er ég ekki að tala um RÚV og Rás 2. Eins mikið og maður vill bölva hinu ríkisrekna er þetta það besta sem býðst íslendingum á eigin tungumáli á meðan keyrt er í vinnuna. Er útvarpsfólkið betur borgað þar en í Bylgjunni? Hamingjusamara?

Ég væri a.m.k. löngu búinn að bíta af mér handlegginn ef ég væri þáttastjórnandi á Bylgjunni. Hverjum datt það í hug að það væri sniðugt að spila sama Phil Collins-lagið svo oft á sama deginum? Þetta framkallar svipaða tilfinningu og ef maður sæti á tannlæknabiðstofu í Helvíti.

sunnudagur, 16. desember 2007

Trú hvíta hyskisins

Umræðan um meint trúboð íslensku Þjóðkirkjunnar í grunnskólum landsins er búin að vera einka hávær upp á síðkastið. Trúaðir og vantrúaðir hafa sakað hverjir aðra um þröngsýni eða ódrengilegheit og vanvirðingu við stjórnarskrárbundið trúfrelsi sem ríkir í landinu. Mér sýnist öll flóran af fólki lagt orð í belg hvoru megin við línuna og fær undirritaður ákveðinn aulahroll undan sumum óþverranum sem sumir trúaðir jafnt sem trúlausir láta út úr sér.

Ég er kominn með upp í kok af áróðri um að kristni hafi fylgt Íslendingnum í heila þúsöld. Það vita allir að þetta er einungis hálfur sannleikurinn. Til að byrja með voru Íslendingar „hálf-kristnir“ þar eð þeir gátu ennþá leyft sér ýmsa heiðna siði; borða hrossakjöt, blóta á laun og bera út börn. Upphaflega var kaþólsk kristni stunduð og var það ekki fyrr en 1550, í siðaskiptunum, sem Íslendingar fóru að aðhyllast lútherisma, sem er sú trú sem íslenska Þjóðkirkjan boðar og er varin af stjórnarskrá. Í rauninni má því segja að kristni eins og við eigum að þekkja hana er ekki einu sinni hálfþúsaldar gömul. Ekki furða að fólk taki í minna mæli mark á kirkjunnar mönnum, ef þeir leyfa sér að teygja sannleikann eftir hentisemi!

Sömuleiðis er ég hættur að nenna að lesa þetta bölvaða þras í mönnum sem meira að segja hafa fyrir því að titla sig „trúleysingi“, eins og það sé ekki augljóst þegar pistillinn er lesinn! Pistlar sem innihalda setningar sem byrja á „Við trúleysingjar...“ eru orðnir ansi margir. Helsta hræðsla þeirra er bersýnilega að tala frá eigin brjósti. Í staðinn tala þeir allir sem einn, eins og ein vel smurð maskína. Allt sem við kemur prestum annars staðar en í kirkjum kalla þeir hiklaust trúboð. Þetta er eins konar tískuorð hjá þeim, eins og þegar menn skeggræða pólitík; „arðrán“ er tískuorð þegar talað er um gömlu Sovétríkin og „efnishyggja“ um Bandaríkin. Með öðrum orðum: Allar gjörðir presta utan kirkju eru einfaldaðar niður í að vera kallaðar „trúboð“, sem er því miður afar illa skilgreint hugtak en allir trúleysingjar eru þó sammála um að það sé slæmt(!).

Í rauninni eru þeir engu betri en biskupsstofa, þeir eru bara hinum megin við línuna. Þetta eru öfgar í báðar áttir og mér var einu sinni kennt að allt væri best í hófi.

Þó leynast sannleikskorn þarna inn á milli. Ég held t.d. að það sé margt til í því að trúrækni Íslendinga fari minnkandi. Færri sækja kirkju nema við skírnir, giftingu, jarðarfarir og auðvitað á jólunum. Þess vegna er mikilvægt að spyrja sig hvort ennþá sé hægt að réttlæta að ein trú njóti sérstakrar verndar ríkisins. Flestir af mínum nánustu vinum trúa ekki á guð ogsumir af þeim hafa jafn vel andúð á Þjóðkirkjunni. Auðvitað er þetta ekki marktækt en ef Þjóðkirkjan hefði sannarlega jafn mikið fylgi og þeir segjast hafa ætti ég að þekkja fleiri trúaða á mínum aldri.

Prestur að nafni Þórhallur Heimisson skrifaði í Mogganum í dag pistil sem laut að trúarbragðafræðikennslu. Hann skrifaði að miðað við hin Norðurlöndin stæðum við höllum fæti þegar kemur að menntun í trúarbargðafræði. Eftir grunnskólann er næstum því ekkert kennt sem kalla má trúarbragðafræði á meðan menn þurfa að taka stúdentspróf úr þessu fagi víða annars staðar.

Út frá þessu er gróflega hægt að álykta að Biblíubeltið svokallaða í Bandaríkjunum kenni eingöngu kristni í skólunum sínum, en enga aðra trú og sér í lagi ekkert sem kallast „trúarbragðafræði“. Þetta leiðir óneitanlega af sér víðfræga staðalímynd um þröngsýnt hvítt hyski sem hefur afar afmyndaða og ósanngjarna skoðun til trúarinnar. Fólk með messíasarkomplex sem þarf að telja öllum trú um að þeirra trú sér sú eina rétta.

Trúleysingjar, sumir hverjir, geta líka verið haldnir þessu messíasarkomplexi. Þeir vilja bara ekki viðurkenna það.

Hvað gerist þegar sextán ára unglingur missir trúna og hefur engan til að ræða um það nema jafnaldra í sömu sporum eða bitrar greinar á netinu um hvað trú er órökrétt og blátt áfram hættuleg? Auðvitað hlýtur hann að öllum líkindum að enda á því að setja sig upp á móti trúnni. Fjögur ár í menntaskóla sem gæti upplýst fólk á viðkvæmum aldri um bæði kosti og galla trúarbragða held ég að gætu leitt af sér að unglingurinn sjái enga þörf í því að tilheyra öðru hvoru „liðinu“ heldur gerir það sem er svo mikilvægt að allir geri: Mynda sér sína eigin skoðun.

Þröngsýnar skoðanir, hvorum megin sem þær leynast, spretta út frá fáfræði. Aukin menntun í trúarbragðafræði leiðir af sér víðsýni og skilning og verulega rýrnun í landlægum heilaþvætti.

þriðjudagur, 11. desember 2007

Fannst réttast að auglýsa þetta hjá mér, annars eru nánari upplýsingar hér. Endilega fjömennið, þið öll sem komist!

Ljóðakvöld Þórshamars

Frjádaginn/föstudaginn 14. desember 2007
Kl. 20:00
Glætunni, Aðalstræti 9 101 RVK leit í símaskránni
Ókeypis inn, ekkert aldurstakmark

Fríir einblöðungar til handa fjöldanum...

Fram koma:
Kristján Sigurðarson
Jökull Arnarsson
Jón Þór Sigurleifsson
Gunnar Þórólfsson
Víngnir pÁ fer með ljóð og fremur gjörning

Sérlegir gestir:
Sindri Freyr Steinsson
Tumi Ferrer
og leynigestir
Opinn hljóðnemi á eftir dagskrá