föstudagur, 16. nóvember 2007

„Háa skilur hnetti himingeimur“

Í dag hefði Jónas „okkar“ Hallgrímsson orðið 200 ára gamall. Eins og oft vill verða um goðsagnir eins og hann breytist almenningsálit á honum með svipaðri reglufestu og nærfataskipti. Ennþá heyrist í einum og einum sem telur Jónas hafa verið fátt annað en róni og bullari, en sú er röddin háværari sem líta á hann sem eitt mikilvægasta og merkasta skáld sem ritaði á íslensku. Dagur íslenskrar tungu er núna orðinn að fánadegi og fjölmiðlarnir skapa heilu þemun í blöðunum sínum til að heiðra minningu Jónasar.

Flestir þekkja þá tilfinningu að finnast fyrirmyndir sínar vera óflekkaðar og að einhvernveginn hafi þær fæðst í þeirri fullkomnu mynd sem þær birtast. Það er aðeins til hið eina Nóbelskáld í okkar huga, alveg eins og það hefði enginn annar en snillingur á borð við hann Jónas getað ort „Ferðalok“. Þjóð elur þessa ekki manngerð af sér nema einu sinni á mannsævi.

Það virðist líka vera ákveðið mynstur sem ákvarðar hvað verður sígilt og hvað ekki. Velvild skáldsins gagnvart landi og þjóð er mikils metin, eins og hneigðin til að koma henni til bjargar ef hætta steðjar að. Þetta seinna atriði gerir skáldið reyndar heldur óvinsælt í samtíma sínum. Þess vegna felst ákveðin fórnfýsi í þessari gjörð sem óvíst verður endurgoldin eftir daga þess.

Þessi hugmynd er auðvitað ekki algalin. Vissulega standa örfáar manneskjur uppi sem ódauðlegar hetjur og bjargvættir íslenskunnar og eiga þau heiður skilinn. Hugmyndin gæti þó dregið kjarkinn úr sumum sem vilja svala tjáningarþörf sinni með sömu aðferðum og forverar sínir og e.t.v. krydda upp á þær eða fara nýjar leiðir.

Gleymum því heldur ekki að ekkert skáld skilar frá sér meistaraverki í fyrsta uppkasti. Bak við þau er ógurleg vinna og tel ég það miklu heldur aðdáunarvert að leggja í slíka vinnu heldur en nokkurn tímann hugsa mér það að Jónasi tókst að skrifa öll sín bestu kvæði án þess að fipast eða eyða aukateknum pappír eða bleki.

Því er það eins og með svo margt annað: Sá stendur uppi sem sigurvegari sem hlúir að sköpun sinni þar til hún er fullgerð. Annað er það nú varla.