miðvikudagur, 14. nóvember 2007

„The noose is on the loose“

Ég vaknaði í dag óvenjulega snemma því ég þurfti að mæta í skólann um átta leytið. Venjulega þarf ég að mæta um níu í allra fyrsta lagi og þess vegna var ég allóhress svona til að byrja með. Ég dreif í mig morgunmat í miklum skyndi og hellti kaffi í bolla sem ég sötraði á meðan ég vafraði aðeins um á veraldarvefnum. Pabbi leit yfir öxlina á mér og sagði síðan: „Tékkaðu á Skapari.com. Það má nú segja að það hafi vakið mig endanlega til vitundar svona í morgunsárið. Auðvitað hlaut að vera einhver hópur Íslendinga sem aðhylltist ný-nasisma, annað væri bara skammarlegt sakleysi í mér. Mér blöskraði samt þegar ég varð vitni að haturslegum og blátt áfram ógnandi orðbragði þeirra sem halda uppi síðunni. Um tíma var ég orðinn hræddur um eigið öryggi...

Ég ætla nú ekki að fara mörgum orðum um hvað mér finnst um síðuna fyrir utan augljósan gunguhátt. Í gríð og erg er fólki mismunað og kallað ófögrum nöfnum, stjórnarskrárbundið málfrelsi er fótum troðið og á aðalsíðunni er skýringarmynd sem sýnir hvernig á að binda hengingarsnöru. Dorrit er kölluð „júðakerling“ og Ólafur Ragnar forseti er „kynþáttasvikari“. Hvergi sér maður nafn greinahöfunda(r), en hægt er að beina skoðunum sínum til þeirra gegnum emailið skapari88 [hjá] yahoo [punktur] com (Nei, þetta er víst ekki fæðingarár þess sem heldur uppi síðunni, heldur þýðir 88 HH eða Heil Hitler, þar sem H er áttundi stafurinn í stafrófinu). Ómögulegt reynist að finna fólkið á bak við síðuna fyrir utan að síðan er hýst hjá PrivateWebHosting.org en slagorðið þeirra er eftirfarandi:

A private membership organization for straight, white, non-jews.

Í stuttu máli eru þetta manneskjur sem eru með sterkar skoðanir og vilja láta taka sig alvarlega án þess þó að þurfa að birta nöfn sín. Meiri hetjurnar! Hollusta þeirra gagnvart málstaðnum er aðdáunarverð. Hitler fór aldrei leynt með sínar skoðanir. Hann sat inni fyrir þær og gat líklega útfært það sem eins konar píslargöngu. Ég vona bara að ástandið í heiminum verði ekki slíkt að menn sem líta á kynþátt sinn sem trúarbrögð(!) muni ná að hafa einhver áhrif hér. Þann hluta mannkynssögunnar vil ég alls ekki upplifa né sjá í mínu lifanda lífi.

En eins og staðan er núna þarf enginn að skíta í buxurnar yfir þessu...