miðvikudagur, 21. nóvember 2007

Örlítill prósi

Læða lagði yfir dalinn og döggvaði blómið og grasið. Syfjan herjaði á litlu börnin og þögnin var allsráðandi. Sólin seig og hvarf bakvið fjallgarðinn og roðinn litkaði þokuslæðuna. Steggjapari brá fyrir, svamlandi í fjörunni, sem tíminn skreytti eitt sinn með skeljum og fögrum steinum. Skrækir í kríu fléttuðust saman við seiðandi óm sjávarins. Við klettahamrana lá strákur á maganum risinn upp við dogg, máttlaus, sveittur og með bremsufar á brókinni. Föl bunan úr kjaftinum fossaði út úr honum og fýlarnir flugu undan vellunni með hraði. Einn þeirra er efst bjó svaraði í sömu mynt og hitti strákinn í andlitið svo af honum lagði fúl lýsislykt í bland við súru stækjuna úr honum sjálfum. Strákurinn kreppti með annarri höndinni utan um græna glerflösku með svörtum miða á, sem fyrr um kvöldið var full af glærum og kynngimögnuðum vökva. Í hinni var lufsa af kæstum hákarli, tyggðum til hálfs. Honum fannst eins og þindin færi út sömu leið, þvílíkan herping hafði hann aldrei fundið fyrir. Enn gutlaði upp úr honum í hóstaköstunum og við það kúgaðist greyið og byrjaði aftur á nýjan leik. Hópur sílamáva gargaði langt fyrir ofan drenginn og dritaði til hans. Nú var gaman.

Hann lagðist á grúfu í grasið og leyfði sjávarniðnum að umlykja vitund sjálfsins. Í fjarska heyrðist fótatak í Jensínu, vinnukonu í sveit skammt frá, sem staðnæmdist við hægri síðu piltsins og kraup á kné. Hún lagði hönd á hár hans og jesúaði sig í innsoginu yfir veslings aumingjanum. Með kröftugri og þaulæfðri hreyfingu, sem ekki var við að búast hjá svo roskinni konu, vippaði hún honum yfir öxlina á sér og kjagaði í átt að bænum. Er heim var komið kraup hún niður og lagði vesalinginn á rúmið, undir höfuðið setti hún svæfil og ullarteppi yfir. Faðir hans rumskaði og settist loks upp við vegginn gengt honum. Hosurnar löfðu af fótunum til hálfs út fyrir rúmbekkinn. Hann ræskti sig og saug af miklum krafti upp í nefið, smjattaði örlítið. Að lokum heyrðist kunnuglegt kokhljóð. Hann dæsti eins og menn gerðu gjarnan eftir að hafa fengið í aðra tána. Augu hans beindust að syni sínum, þvölum og ókyrrum, með lokuð augun.

„Stalst hann í brennivínið helvískur. Ja nú veit hann betur.“ sagði hann og sneri sér að Jensínu. „Gefð'onum eitthvað að éta, svo hann spýji einhverju.“

Jensína tók til þrumara og smjör en einnig var til nýlagað kaffi því hún vissi að fólkið á bænum var hressara í bragði ef það vaknaði við ilminn af því. Hún hellti í bolla handa honum og bað hann að reisa sig svo hann gæti tekið við honum. Er hann tók bollan báðum höndum fann brennandi ylinn undan kaffinu stakk Jensína upp í hann rúgbrauðinu beið þess að hann beit. Smjörið leitaði í munnvikin á meðan hann smjattaði. Kjálkarnir sigu þegar hann var búinn að kyngja. Orkan í vaxandi kroppnum þraut fyrir löngu síðan. Strákgarmurinn hengdi haus og leyfði nýtuggðri saðningunni að streyma niður á bringuna. Slefið dinglaði af vörum hans er hann leit í gaupnir sér og skyrpti. Agnarsmátt og dauft rop kom í kjölfarið. Syfja herjaði á skynjunarvit hans og allt varð að lokum svart.