þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Önnur sería af Kallakaffi!

Nú þegar RÚV hefur þegið þessar líka fúlgur fjár frá Björgólfi er vart hægt að komast hjá því að spyrja hvað sé framundan í íslensku sjónvarpsefni. Langt af hefur meginþrýstihópur þessarar stofnunar verið ríkið sjálft svo óneitanlega er hér hægt að tala um nýja og ferska strauma en má fólk deila um það hvort vindáttin sé heillavænleg.

Útvarpsstjóri sagði í Kastljósinu að fjárframlög Björgólfs bæru ekki á neinn hátt með sér skuldbindingar af nokkru tagi. Peningunum mætti RÚV eyða eins og þeim hentaði við gerð nýrra sjónvarpsþátta. Björgólfur kæmi ekki nálægt framleiðslunni að neinu leyti öðru en að kosta hana. Miðað við frásögn Fréttastofu RÚV angar örlæti hans af engu öðru en hreinni gæsku og velvilja. Umfjöllunin er hættulega einhliða, enda er RÚV á heimavelli og því fyrst með fréttirnar og passar því upp á að sýndar séu allar hliðar málsins. Mönnum er ekki veittur tími til að kanna staðreyndir né velta vöngum. Þess vegna kom það alls ekkert á óvart þegar Páll Magnússon útvarpsstjóri sest gengt talsmanni Hollvinafélags Ríkisútvarpsins, Þorgrími Gestsyni. Öryggi og mælska fyrrnefnds ræðumanns kemur hinum seinni svoleiðis úr jafnvægi að hinn almenni áhorfandi spyr einskis frekar og dæmir málið útrætt og fljótt afgreitt.

Tíminn verður því að leiða það í ljós hvort Páll finni sig knúinn til að klóra Björgólfi á bakið í náinni framtíð. Með þessum peningi gæti hann t.d. haldið lífinu í Spaugstofunni í stað þess að lóga þessu gamla og tannlausa hundsóféti og gefa yngri og frumlegri grínurum löngu verðskuldað tækifæri. Fyrir afganginn af peningunum gæti hann látið framleiða aðra þáttaröð af Kallakaffi og aðra meinlausa ófyndni sem passar upp á að gera ekki á hlut neinna „velunnara“ Ríkisútvarpsins.